Monday, October 26, 2009

Stóri litli Krummi bloggar

Ég Krummi, ákvað að skrifa ykkur nokkrar línur á tölvuna eins og mamma gerir alltaf.

Það skemmtilegasta sem ég veit er að vera úti í garði og fylgjast með umhverfinu. Þar eru fuglar að fljúga og fólk að labba framhjá. Bílar og kettir eða einhver að gera við húsið sitt. Alltaf eitthvað að sjá og fylgjast með.

 Hérna get ég setið tímunum saman. Mamma segir að ég sé stór lítill strákur. 
Sjáið þið augnsvipinn minn? þennan nota ég óspart þegar mig langar eitthvað .... og hann virkar alltaf ;-)
Mamma útbjó langt band svo ég gæti verið einn hérna úti að horfa, þurfti ekki annað en þetta augnaráð ... ;-)


 Og svo er ýmislegt inni í garðinum sjálfum, þó ekki sé hann stór. Fallegir litir finnast á sumum plöntunum ennþá, svo er allskyns lykt og mosi ...
 
... sem þarf að smakka.

Þessi vínrauði er svo fallegur :-)
 
Og þessi græni, mér var sagt að þetta minnti eitthvað á jól ... hvað ætli það sé?!

Mér finnst líka óstjórnlega skemmtilegt að leika við kisurnar á heimilinu. En einhverra hluta vegna eru þær ekki allar sammála mér með það. Edda fer til dæmis oft inn í dúkkuhús og ég næ henni ekkert þar.

Svo er það aðaldrottningin á heimilinu hún Alex (ansi feit, finnst ykkur ekki?). 
Hún vill alls EKKERT tala við mig, mamma segir að hún verði bráðum mjórri .... 
ég skil það nú ekki ... en mér skilst að þá verði fjör ...



Thursday, October 22, 2009

Það þarf ekki að leita langt

 til að sjá fegurð Lífsins





 


Monday, October 19, 2009

haust/vetur

Ennþá er maður að reyna að finna út hvort það er haust eða hvort þetta heiti núna vetur. Ég er aldrei alveg viss og skipti stöðugt um skoðun :-)
En allavega er maður meira inni í hlýjunni, liggur og hvílir sig og leyfir skrokknum að fylgja árstíðunum í orkuskiptum ...
eða heitir það kannski bara leti? ;-)


 Það er spurning hvort Edda ætlar alls ekki að missa af ef það hringir einhver eða hvort hún sofnaði bara yfir hundleiðinlegu samtali ... haha

Það getur verið svo notalegt að kúra sig undir teppi með sauma eða einhverja handavinnu, ég tók mig til og saumaði eitt lítið jólabox sem Judy Grant Vinátturefilsvinkona sendi mér um daginn.

Edda varð að athuga vinnubrögðin auðvitað ;-)
 
Og hér sést litla boxið betur. Judy sendi mér pakka með þessu skemmtilega setti til að sauma. Svo það er aðeins kominn smá jólafílingur ...
 
 Ég tók líka upp heklunálina og fann mér garn úr bunkanum mínum, til að prófa húfu með deri.
Hún kom svona út ...
 
og svona fyrir Emblu Sól. Hún sagði nefnilega þegar amman var að hekla:
"Amma gera líka húfu "alvegeinsogeins" á Emblu" með stórt vongott spurningamerki í augunum. Amma sagði auðvitað: "Já já, viltu græna?"
 
Og svo var rekið á eftir mér þar til húfan var tilbúin :-)

 
 Svo er það hún Alex, sjálf hennar hátign lafði Alexandra, hún ætlar að koma með jólakettlingana í ár. Nú fer að líða að fæðingu og allt að verða klárt. Æ, þetta er svo gaman, bara vona að þeir verði ekki mjöööööööög margir .... ;-)


Friday, October 9, 2009

Hundalíf

Þegar "maður" er lítill hvolpur á nýju heimili þá er ýmislegt sem þarf að læra. Það þarf að skoða og þefa allt húsið hátt og lágt, finna út hvar maturinn er og svo auðvitað að kynnast öllum hinum í hópnum.

Það þarf margt að skoða, upplifa og læra. Þegar mikið er að taka inn, getur verið gott að sitja sem næst mömmu sín, helst á tánum á henni og finna þannig hvernig orku hún gefur frá sér, svo hægt sé að læra af.

Krummi litli reynir að fá Herra Albus Dumbledore til að leika við sig ...

Hann Albus, mesti töffarinn á bænum tekur Krumma vel og leyfir honum að kissa á báttið sitt. Albus nefnilega náði sér í sár á ennið í síðustu slagsmálum götunnar.
 
Emblan okkar og Krummi litli tengjast strax sterkum böndum. Ég held að hún hefði ekki getað fengið betri huggun í söknuðinum eftir Dúfu heldur en svona fjörugan og yndislegan hvolp. (takið eftir kollinum á hvolfi upp í sófa, það voru litlar tennur sem gátu ekki látið kollinn í friði .... ;-) Heimilið er semsagt undirlagt eins og alltaf þegar nýtt ferfætt krútt kemur inn á heimili :-)

 Frá upphafi náðu þau vel saman litlu krúttin. Algjörlega dásamlegt að fylgjast með þeim :-)
 
Hann Krummi er svo heppinn að hafa eignast vin í næsta húsi, hann Flóka. Flóki kom í heimsókn og það var mikið fjör og mikið gaman :-)

 Þeir ræða málin vinirnir Krummi og Albus og eru komnir nálægt því að ná bræðratengingunni. Albus var nefnilega eins mikið alinn upp af hundum eins og kisumömmu sinni. Ég hef oft grun um að hann haldi að hann sé hundur ...

 Mamma hans Albusar; hennar hátign Alexandra er hins vegar með hugann við annað þessa dagana.

Hún á nefnilega von á kettlingum um næstu mánaðarmót
og þá verður sko fjör á bænum.

Saturday, October 3, 2009

Þakkir fyrir Lífið og Ljósið


Okkur Dúfu langar að þakka ykkur öllum sem báðuð fyrir Dúfu og senduð henni Ljós og góðar sterkar hugsanir. Þó að hún hafi ekki læknast á líkama þá fékk hún auka daga með okkur, svo við gætum kvatt hana og hún okkur.
Ég vaknaði upp nóttina eftir að hún dó og sá hana Dúfu sveipaða Ljósi. Bænaljósinu frá ykkur og okkur öllum. Hún var laus við alla verki, var orðin frjáls og hress til að hlaupa og leika sér. Það er eins með dýrin okkar eins og mennina, bænin virkar alltaf þó það sé ekki á þann hátt sem við ætluðum.

Þessa mynd af Dúfu tók ég daginn áður en hún dó.


Krummi litli skyldi ekki alveg af hverju hún vildi ekki leika við hann. Hann er búinn að kalla á hana Dúfu og leita að henni um allt. Eins hafa kettirnir gert.
Emblan mín er að læra á Lífið, sumt er erfitt að skilja en börn eru svo ótrúleg og leggja sinn skilning í tilveruna. Og svona er Lífið, það hefur óvæntar beygjur og óvæntar dýfur en það hefur líka óvæntar hæðir. Málið er að standa áfram og taka Veginn eins og hann kemur og gera það besta úr honum.
 
Þegar maður syrgir, þá er eins og sorg yfir öllu sem hefur hent mann gegnum tíðina komi aftur upp á yfirborðið. Maður fær tækifæri til að klára ógrátna sorg, fyrir það ber manni líka að þakka.
 
Þarna féllu Lalli og Dúfa hvort fyrir öðru og tvö ógleymanleg ár voru framundan.
Það er nauðsynlegt að syrgja, læra og þakka fyrir.

Nú getur hún Dúfa, með endurnýjuðum styrk sínum, gengið á fjöll með öðrum dýrum og föður mínum sem hefði orðið áttræður daginn sem Dúfa fór til hans.

 Lífið deyr aldrei, það verða breytingar á tilverunni en Lífið heldur alltaf áfram :-)

Friday, October 2, 2009

Hléseyjar Dúfa Hnoss , minning

Elsku hjartans fallega ljúfa Dúfan mín fékk hjartaáfall í gærkvöldi. Hún er farin á himneskar heiðar.
Við trúðum því að hún væri á hægum batavegi eftir eitthvert eitur eða hvað það var sem hún borðaði. Við fáum sennilega aldrei útskýringu á því hvað það var eða hvar hún fann það.

Magni litli Víkingakisi tók á móti henni á innri sviðunum, ásamt gömlu Pollýönnu minni og Punkti og Engli litla kisustrák. Það er kominn heill dýrahópur frá okkur sem er í umsjón pabba þarna hinumegin.

Dúfan og Magni litli voru alltaf perluvinir, nánast eins og systkin enda jafngömul. Hann lést eftir slys í sumar.
Nú geta þau kúrað saman aftur.


Dúfan mín var uppátækjasöm, glöð og mikill lífskraftur sem einkenndi hana. Ljúf og góð við hin dýrin á heimilinu og tók honum Krumma litla, nýja hvolpinum svo vel.

Við höfðum séð fyrir okkur að þau tvö yrðu svo góð saman í framtíðinni.
En í stað þess að dvelja við þá hugsun, einblínum við á allt það fallega og góða sem Dúfa kenndi okkur í sínu stutta lífi. Þær eru óendanlega margar og góðar minningarnar sem við höfum um hana.

Það verður ekki auðvelt að útskýra fyrir henni Emblu Sól á eftir, hvað varð um bestu vinkonuna/"systur" hennar.

Elsku hjartans Dúfa mín þakka þér fyrir þessi tvö dýrmætu ár sem þú gafst okkur. Minningarnar eru ómetanlegar til að ylja sig við um ókomin ár.

Hún var svo sannarlega falleg hún Hléseyjar Dúfa Hnoss.